Nauðungarsala á þremur eignum við Hringbraut 121, einnig kallað JL-húsið, fer fram hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu fyrir hádegi á miðvikudaginn. Um er að ræða rými á jarðhæðinni fyrir veitingahús og gistirými á fjórðu og fimmtu hæð sem hefur hýst Circle Hostel og þar áður Oddson hótelið sem lokaði haustið 2018.

Eignirnar eru í eigu JL Holding ehf. sem var samkvæmt síðasta ársreikning fyrir árið 2019 í 70% eigu Margrétar Ásgeirsdóttur í gegnum fjárfestingafélagið S9 og 30% í eigu Loftsson Holding sem var úrskurðað gjaldþrota í lok árs 2019. Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir voru meðal hluthafa í Loftsson Holding á sínum tíma. Gerðarbeiðendur eru Orkuveita Reykjavíkur-vatns sf., Veðskuldabréfasjóðurinn Virðing og Íslandsbanki.

Einar Páll Tamimi, stjórnarformaður JL Holding, segist í samtali við Viðskiptablaðið gera fastlega ráð fyrir því að ekki verði af nauðungarsölunni. Eigendur félagsins vinni nú með lánveitendum að því að finna lausnir. Einar segir að staða félagsins hafi verið nokkuð snúin frá því að faraldurinn hófst en nú sé búið að finna eigninni framtíðarfarveg sem unnið er að því að koma til framkvæmda.

Rýmið á jarðhæðinni 1.283 fermetrar og fasteignamatið er skráð á 322 milljónir króna. Gistirýmin á fjórðu og fimmtu hæð eru samtals 1.630 fermetrar og er fasteignamatið á þeim samtals 315 milljónir.

Þá er verið að auglýsa á sama tíma sex eignir til sölu á annarri og þriðju hæð JL-hússins sem eru í eigu Myndlistarskólans í Reykjavík. Eignirnar sex eru samtals skráðar sem 2.579 femetrar að stærð. Fasteignamat þeirra er 529,4 milljónir króna.

Í maí 2016 opnaði JL Holding Oddson hostel í JL-húsinu sem átti að vera blanda af farfuglaheimili og hóteli á fjórðu og fimmtu hæð hússins. Upphaflega var sótt um leyfi fyrir 185 gistirými eða rúm, samkvæmt Vísi . Móttaka, opið rými með bar og veitingastaðurinn Bazaar var að finna á jarðhæðinni.

Bazaar var lokað í janúar 2018 og Oddson hótel í JL-húsinu lokaði um haustið sama ár. Circle Hostel tók við af Oddson og var Ásgeir Mogensen, sonur Margrétar og Skúla Mogensen, framkvæmdastjóri Circle um tíma. Pílubarinn Skor var með veitingarýmið á jarðhæðinni til leigu síðustu mánuði en flutti undir lok síðasta árs á Geirsgötu 2-4.