Árleg efnhagsskýrsla OECD um Ísland var kynnt á blaðamannafundi í dag en Hannes Suppanz og Val Koromzay frá Alþjóðlegu efnahags- og þróunarstofnuninni (OECD) eru staddir hér á landi í tilefni útgáfunnar.

Í aðalatriðum fjallar skýrslan um að nauðsynlegt sé að koma á jafnvægi í hagkerfinu eins skjótt og hægt er og að til þess að ná því markmiði sé nauðsynlegt að styrkja innviði hagstjórnarinnar og efla virkni peningamálastefnunnar. Sérfræðingar OECD telja að þrátt fyrir að hagstjórnin hér á landi sé með besta móti og í raun fyrsta flokks meðal OECD þá sé nauðsynlegt að auka samskipti milli hagstjórnar annars vegar og peningamálastjórnar hins vegar til að ná betri árangri í hagstjórn.

Hannes Suppanz sérfræðingur hjá OECD sagði jafnframt að æskilegt væri að bíða með að ráðast í frekari stóriðjuframkvæmdir þar til jafnvægi hefur komist á í hagkerfinu. Engu að síður mælti Suppanz með skynsamlegri nýtingu á orkuauðlindum landsins. Talaði Suppanz um í þessu sambandi að þar sem enn væri ekki hægt að flytja út hreina orku væri besta fyrirkomulagið að styðja við orkufrekan iðnað líkt og nú þegar hefur verið gert.

Í skýrslunni er einnig lögð áhersla á að auka frelsi í fjármálageiranum til að hlúa að hagvexti og stöðugleika. Sérrfræðingar OECD töldu að viðleitni í þessum efnum hafi verið með besta móti en að ennþá væri hægt að auka við frjálsræði í fjármálageiranum með ýmsu móti.

Það mikilvægusta í þeim efnum væri að breyta fyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs sem fyrst. Sérfræðingar OECD segja að margir möguleika séu í boði þegar horft er til breytinga á núverandi fyrirkomulagi. Hægt væri að breyta íbúðarlánasjóði í heildsölubanka, önnur leið væri að leggja gjald á Íbúðalánasjóð sem endurspeglar kostnað af ríkisábyrgðinni og nauðsynlega arðsemi af eigin fé sjóðsins.

Einnig leggur OECD til að frumkvöðlastarfsemi fyrirtækja verði stórefld.

Sérfræðingar OECD gerðu menntun afar hátt undir höfði í kynningu sinni á skýrslunni enda fjallar heill kafli skýrslunnar um menntun og mikilvægi þess að efla menntun til að auka hagvöxt og samkeppnishæfni þjóðarinnar.

Að mati þeirra Suppanz og Koromzay hefur Ísland dregist aftur úr í þessum efnum. Námsárangur barna í íslenskum grunnskólum er í meðallagi innan OECD þjóða sem er óviðunandi þegar tekið er tillit til að Ísland er ein ríkasta þjóð í heimi. OECD leggur til að koma ætti á skólagjöldum í ríkisreknum háskólum og í stað þess að bjóða upp á allar nánmsleiðir innanlands ætti að hvetja nemendur til að sækja nám erlendis í auknum mæli.