Katrín Pétursdóttir hefur verið forstjóri Lýsis frá árinu 1999 en hefur jafnframt verið viðloðandi fyrirtækið frá barnæsku. Afi hennar, Tryggvi Ólafsson, stofnaði fyrirtækið árið 1938 eftir að hafa borist skeyti frá E. C. Wise hjá lyfjafyrirtækinu Upjohn í Michigan í Bandaríkjunum. Í skeytinu örlagaríka var leitast eftir því hvort hann gæti útvegað þorskalýsi. Upjohn hafði fram að þessu keypt lýsi frá Noregi, en þurfti að finna annan birgja eftir að hlutfall A- og D-vítamína í norska lýsinu hafði skyndilega hrapað. Í kjölfarið má segja að íslenska Lýsisævintýrið hafi byrjað.

Foreldrar hennar störfuðu jafnframt við félagið en sögðu þó síðar skilið við það þar til Katrín keypti fyrirtækið aftur. „Ég hef alla tíð verið atvinnurekandi og hef í raun aldrei unnið hjá öðrum. Ég stofnaði mitt eigið fyrirtæki samhliða menntaskólanámi þegar ég var 16 eða 17 ára sem hét þá Hnotskurn og seldi auglýsingavörur. Fyrirtækið er enn til og heitir í dag Margt smátt og er eitt af leiðandi fyrirtækjum á því sviði,“ segir Katrín og bætir við að það hafi þótt frekar undarlegt þegar hún fór upp á skrifstofu í Verslunarskólanum til að biðja um frí til að fara til útlanda á vörusýningar. Katrín hafði alltaf mikinn áhuga á framleiðslu og hóf því nám í iðnrekstrarfræði. „Þegar ég lauk náminu seldi ég Hnotskurn og notaði vélar og tæki til að fara í samkeppni við Lýsi hf. Það endaði síðan með því að ég keypti félagið árið 1999. Af því ég er nú svolítið stór og mikil þá varð úr því orðatiltækið: If you can´t beat them, eat them,“ segir Katrín og skellihlær.

En þú seldir síðan þinn hlut í Lýsi hf. árið 2008, ekki satt. Áttu einhvern hlut í fyrirtækinu í dag?

„Efnahagshruninu hér á landi árið 2008 fylgdu ákveðnar þrengingar hjá okkur sem öðrum. Í kjölfarið seldi ég stóran hlut í félaginu. Þann hlut keypti ég síðan til baka árið 2010 og í dag á ég 73% hlut í fyrirtækinu.“

Neikvætt andrúmsloft gagnvart atvinnulífinu

Þrátt fyrir mikinn uppgang í viðskiptalífinu og samfélaginu öllu um þessar mundir segir Katrín neikvæða orð- ræðu gagnvart íslensku atvinnulífi fara mikið fyrir brjóstið á sér og hafa lengi gert. „Það er alltaf verið að tala niður og kasta rýrð á atvinnulífið. Það er tortryggt í hvívetna og það á sama tíma og við erum að horfa til þess að íslenskt atvinnulíf er að standa sig alveg gríðarlega vel. Það má til dæmis nefna sjávarútveginn þar sem erum við með fyrirtæki á heimsmælikvarða. Íslendingar eru að standa sig helmingi betur en nágrannaþjóðir sínar í umhirðu og fullnýtingu sjávarafurða. Við erum að nýta 75-78% af aukaafurðum samanborið við til dæmi 25-30% í Noregi.

Það er verið að gera svo vel svo víða í íslensku atvinnulífi og mér finnst það hreinlega ekki njóta sannmælis. Almennt finnst mér að það þurfi að koma til meiri hvatningar og viðurkenningar á því sem vel er gert á þessu sviði. Atvinnulífið er algjörlega órjúfanlegur hlutur frá heimilum, almenningi og byggð í þessu landi og mér finnst oft skorta skilning á þeirri tengingu.“ Að- spurð segir Katrín að henni finnist orð- ræðan vissulega hafa versnað í kjölfarið á efnahagshruninu árið 2008. „Það hreiðraði um sig einhvers konar tortryggni og neikvæðni í garð atvinnulífsins. Ég held að ég sé ekki ein á þessari skoðun.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.