Rekstrarniðurstaða Kópavogsbæjar var neikvæð um 443 milljónir króna á fyrri árshelmingi, áætlun ársins hafði gert ráð fyrir rekstrarhalla að upphæð 75 milljónum. Munurinn þar á eru 518 milljónir króna en rekstrarniðurstaða bæjarfélagsins var jákvæð um 158 milljónir króna á síðasta ári.

Tekið er fram að mismunur á áætlun og niðurstöðu skýrist af tekjufalli vegna heimsfaraldursins. Útsvarstekjur voru lægri en áætlað var, sundlaugar voru lokaðar en einnig hefur sveitarfélagið endurgreitt ýmis gjöld svo sem leikskólagjöld og leigugjöld.

Rekstrartekjur námu 16,6 milljörðum króna sem er sambærilegt og á fyrra ári en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 17,5 milljörðum. Rekstrargjöld námu 15,4 milljörðum sem er aðeins hærra en á fyrra ári en undir áætlun ársins.

Eignir Kópavogsbæjar nema nú 75 milljörðum króna en þær lækkuðu örlítið milli ára. Þar af eru fasteignir bæjarfélagsins metnar á 45 milljarða króna en fastafjármunir í heild nema 71 milljarði. Skuldar nema 45 milljörðum og breyttust lítið milli ára. Eigið fé sveitarfélagsins nemur tæplega 30 milljörðum og eiginfjárhlutfall er rétt undir 40%.

„Við stöndum frammi fyrir umtalsverðu tekjufalli og ljóst að hremmingum Covid-19 fylgir mikill kostnaður, ekki síst í velferðar- og menntamálum. Í ljósi þess verður stærsta áskorunin að standa vörð um grunnþjónustu bæjarins og er lántaka óhjákvæmileg í því samhengi.

Bæjarstjórn tók þá ákvörðun í upphafi faraldursins að skera ekki niður framkvæmdir heldur þvert á móti að auka við þær til að ýta undir hærra atvinnustig og þar með draga úr atvinnuleysi. Það er jákvætt að skuldir bæjarins lækkuðu um 210 milljónir á fyrri hluta árs sem er gott veganesti fyrir verkefnin framundan,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs í tilkynningu bæjarfélagsins.