Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag og að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins eftir að neikvæðar fréttir bárust af bandaríska fjárfestingabankanum JP Morgan en fjölmiðlar vestanhafs greindu frá því í dag að JP Morgan myndi þurfa að afskrifa um 1,5 milljarð Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði í dag  um 0,4% en hafði þó um tíma í dag hækkað um 0,1%.

Sem fyrr segir voru það bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins. Þannig lækkuð BNP Paribas, Deustche Postbank, Societe Generale og RBS allir um 3%.

Þá fóru hlutabréf í svissneska bankanum UBS í rússíbanaferð í dag en félagið hafði lækkað um 2,4% við lok markaða eftir að hafa hækkað um allt að 4,2% og lækkað um 2,9%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,1%, í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 0,4% en í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan hins vegar um 0,8%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,4% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,5%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,3%, í Osló lækkaði OBX vísitalan um 1,2% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 0,4%.