Áskrifendur bandarísku streymisþjónustunnar Netflix eru nú orðnir 40 milljón talsins. Í Bandaríkjunum eru áskrifendurnir 31,1 milljónir talsins og fjölgaði þeim um 4,5% á milli ársfjórðunga. Fram kom í uppgjörstilkynningu Netflix sem birt var í gær að gert sé ráð fyrir því að um 3,6 milljónir áskrifenda bætist við á yfirstandandi ársfjórðungi og verði þeir orðnir 43,6 milljónir talsins um áramótin.Áskrifendur utan Bandaríkjanna eru 9,2 milljónir talsins og er gert ráð fyrir því að þeir fari upp í 10 milljónir um áramótin.

Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir Reed Hastings, forstjóra Netflix, að streymisveitan eigi mikið inni enda sé horft til þess að ná fjölda áskrifenda upp í 114 milljónir. Þar af er þess vænst að þeir verði á bilinu 60-90 milljónir í Bandaríkjunum.

Bloomberg segir nýjum áskrifendum að þjónustu Netflix hafa fjölgað meira en búist hafi verið við. Það skýrist af mikilli ásókn í nýja þætti sem Netflix hefur látið gera, s.s. þáttaraðirnar Orange is the New Black og House of Cards. Netflix stefnir á að framleiða meira efni á næsta ári og setja tvöfalt hærri fjárhæðir í framleiðsluna en upp á síðkastið.