Bandaríska netsjónvarpsveitan Netflix ætlar að framleiða fjórar þáttaraðir um jafn margar ofurhetjur. Stjórnendur fyrirtækisins hafa samið um verkið við Marvel Entertainment, dótturfyrirtæki Walt Disney. Ekkert hefur verið gefið upp um það hversu mikið Netflix þarf að greiða Marvel fyrir. Í umfjöllun breska dagblaðsins Financial Times segir að stjórnendur Netflix þurfi að punga út meiru en 100 milljónum dala, jafnvirði 12 milljarða íslenskra króna, eins og greitt var fyrir réttinn til að framleiða tvær þáttaraðir af House of Cards.

Á meðal ofurhetjanna sem munu birtast í þáttum Netflix eru Daredevil, Iron Fist, Jessica Jones og Luke Cage.

Samningurinn kemur í kjölfar samstarfs Netflix og Disney sem felst í því að eftir að myndir Disney fara í almenna dreifingu þá munu þær jafnframt rata til þeirra sem eru áskrifendur að myndefni Netflix. Þar á meðal eru líka myndir frá PIxar og Lucasfilm, sem vinnur að gerð sjöundu myndarinnar í Star Wars-bálkinum.