„Ný Nettó verslun opnar á næstunni í efri byggðum Kópavogs, nánar tiltekið í Búðakór þar sem áður var Samkaup Strax verslun. Samkaup rekur verslunarkeðjurnar Nettó, Samkaup Úrval og Samkaup Strax en fyrirtækið telur að sú mikla uppbygging sem hefur átt sér stað í Kórahverfinu og nærliggjandi byggðum í Kópavogi kalli á aukna þjónustu fyrir íbúa svæðisins, meira vöruúrval og vörur á góðu verði." Þetta segir í fréttatilkynningu frá Nettó.

Nettó hefur einnig verslun í Kópavogi, og verður ný verslun í Búðakór því önnur verslun keðjunnar í bæjarfélaginu. Þrjár verslanir eru fyrir í Reykjavík.

Hverfi í hraðri uppbyggingu

„Við höfum góða reynslu af því að þjóna íbúum í efri byggðum Kópavogs og töldum mikilvægt að Kórahverfið fengi sína Nettó verslun rétt eins og Salahverfið. Þetta eru hverfi í hraðri uppbyggingu þar sem íbúarnir eru mikið ungt fjölskyldufólk sem mun taka því fagnandi að fá verslun með stærra vöruúrvali og vörur á samkeppnishæfu verði. Þetta er orðið ca.4000 manna hverfi og við viljum vaxa með því," er haft eftir Ómari Valdimarssyni, framkvæmdastjóra Samkaupa.

Verslunin opnar á morgun, föstudaginn 26. júní klukkan 10:00. „Þar verður ýmist glens og gaman, grill, kynningar, tilboð og fleira," segir í fréttatilkynningu.