Hlutabréf í breskum net-veðbönkum hríðféllu í dag, í kjölfar þess að löggjöf sem bannar slíka starfsemi í Bandaríkjunum var samþykkt á bandaríska þinginu, en ekki var talið að hún yrði samþykkt, segir í frétt Dow Jones.

Samkvæmt lögunum sem bíða undirritunar George W. Bush, bandaríkjaforseta, verður breskum netveðbönkum óheimilt að taka við veðmálum í Bandaríkjunum, en markaður netveðbanka þar í landi hefur reynst arðbær, segir í fréttinni.

Gengi bréfa stærsta netveðbanka heims, PartyGaming, sem er skráð á FTSE100, féll um 57% við fréttirnar.
Aðrir veðbankar féllu einnig: Sportingbet um 64%, 888 um 26% og World Gaming um 76%.

Breska fyrirtækið NETeller, sem sér um flutninga fés á netinu féll einnig um 61%.