Fjármálaráðherrar G7 ríkjanna munu eiga neyðarsímafund í dag um stöðu Spánar og ástandið í skuldugustu evrulöndunum. Þetta kemur fram á vef Financial Times.

Jim Flaherty fjármálaráðherra Kanada segir í samtali við blaðið að helsta áhyggjuefnið væri veikleiki evrópskra banka. Sérstaklega að margir þeirra væru ekki með nægjanlegt eigin fé.

Jim Carney blaðafulltrúi Hvíta hússins segir að markaðurinn sé enn fullur efasemda að gripið hafi verið til fullnægjandi ráðstafanna til að koma Evrópu út úr kreppunni og minnka hættuna á að krísan versni.

Öllu jöfnu er símafundum sem þessum haldið leynt. Upplýsingar um hann láku í kjölfar þess að þýskir ráðamenn sögðu að það væri undir Spánverjum sjálfum komið hvort þeir myndu óska eftir fjárhagsaðstoð.

Spánverjar hafa ítrekað neitað að þörf sé á því. Ráðamenn Írlands, Grikklands og Portúgals neituðu allir að löndin þyrftu aðstoð, áður en þau sóttust eftir neyðarlánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu.

Ónafngreindur heimildarmaður innan G7 hópsins sagði að bankaáhlaup á Spáni væri raunverulegt áhyggjuefni í kjölfar vandræða Bankia, þriðja stærsta banka landsins.

G7 löndin eru iðnríkin sjö, Bandaríkin, Japan, Kanada, Þýskaland, Ítalía, Frakkland og Bretland.