Tekjur einstaklinga í Bandaríkjunum minnkuðu mikið í  júlímánuði. Það hefur leitt til minnkandi neysluútgjalda. Hins vegar virðist sjálfsöryggi neytenda aukast á sama tíma.

Tekjur einstaklinga drógust saman um 0,7 prósentustig í júlí en það er mesti samdráttur á tekjum síðan í ágúst árið 2005 þegar tekjur einstaklinga í Bandaríkjunum minnkuðu um 2,3 prósent að meðaltali. Var sú lækkun rakin til fellibylsins Katrínu sem skall á austurströnd Bandaríkanna það ár og olli miklum skaða.

Núverandi tekjulækkun kemur þvert á spá greinenda en spáð hafði verið að tekjur myndu haldast nokkuð stöðugar.

Reuters fréttaveitan greinir frá þessu.

Verðhækkanir hafa einnig verið talsverðar undanfarið og hefur það m.a. leitt til þess að verðbólga er nú í 17 ára hámarki. Neysluútgjöld, sem valda u.þ.b. tveimur þriðju af hreifanleika bandaríska hagkerfisins, jukust um 0,2 prósent en það er minnsta aukning síðan í febrúar á þessu ári. Verðbólguleiðrétt útgjöld féllu um 0,4 prósent, en það er mesta fall síðan í júní árið 2004.