Neytendasamtökin gagnrýna í dag fjarskiptafyrirtæki en samtökin segja það hafa færst í aukana að fjarskiptafyrirtæki beiti mjög ágengum söluaðferðum við að „krækja“ í nýja viðskiptavini, eins og það er orðað á vef samtakanna.

„Oft ganga þessi viðskipti nokkuð hratt fyrir sig því fyrirtækin hringja í einstaklinga og bjóða þeim tiltekna þjónustu án þess að viðkomandi hafi tíma til þess að kynna sér efni samnings,“ segir á vef Neytendasamtakanna.   Þá er tekið fram að þessir samningar fela oft í sér að einstaklingur er bundinn í sex mánuði án þess að hafa fengið samning í hendur til samþykktar. Munnlegt samþykki í gegnum síma sé eitt látið duga.

„Þá hafa fyrirtækin jafnframt orðið uppvís að því að leita til unglinga með það í huga að selja þeim tiltekna fjarskiptaþjónustu,“ segir á vef samtakanna.

„Það verða að teljast mjög varhugaverðir viðskiptahættir að binda þannig ólögráða einstakling án þess að samþykki foreldis sé fyrir hendi. Þannig hafa fyrirtækin skuldbundið unglinga án þess að þeir hafi fengi tækifæri til að kynna sér efni samningsins og borið hann undir foreldra eða forráðamann.“

Neytendasamtökin taka fram að þegar sölumenn hringja heim til fólks og bjóða áskrift að fjarskiptaþjónustu fellur slík sölumennska undir lög um húsgöngu- og fjarsölusamninga.

„Samkvæmt þeim hefur neytandinn rétt til að falla frá samningnum án nokkurra skuldbindinga svo framarlega sem það er gert innan 14 daga. Reyndar ber sölumanni að kynna fyrir neytanda að hann hafi rétt til að falla frá samningi og sé það ekki gert áður en samningur er staðfestur er samningurinn ekki bindandi fyrir neytandann,“ segir á vef samtakanna.

Sjá nánar vef Neytendasamtakanna.