Neytendastofa hefur með ákvörðun sinni gert 365 miðlum að breyta áskriftarskilmálum sínum vegna Stöðvar 2.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu en þar kemur fram að skilmálar sem heimili þjónustuveitendum almennt að gera einhliða  breytingar á skilmálum geti talist ósanngjarnir. Auk þess séu skilmálar þar sem heimilt er að breyta verði án þess að neytandanum sé kynnt fyrirhugðu breyting og gefinn kostur á að slíta samningi ósanngjarnir.

Ákvörðun Neytendastofu kemur til vegna kvartana frá áskrifendum Stöðvar 2 þar sem áskriftargjaldið var hækkað án fyrirvara. Með ákvörðun Neytendastofu er 365 miðlum gert að tilkynna áskrifendum sínum með fullnægjandi og sannanlegum hætti ef gerðar eru breytingar á skilmálum eða breytingar á verði þjónustunnar.

„Í núverandi skilmálunum er kveðið á um að 365 miðlum sé heimilt að gera breytingar á skilmálunum og að það verði tilkynnt á vefsíðunni stod2.is,“ segir á vef Neytendastofu.

„Neytendastofa telur í þessu máli það ekki vera fullnægjandi tilkynningu. Vilji áskrifandi ekki sætta sig við breytinguna geti hann, skv. ákvörðuninni, slitið samningi eða sagt þjónustunni upp jafnvel þó að áskriftartímabili sé ekki lokið.“

Sjá nánar á vef Neytendastofu.