Tekjur íslenskra fyrirtækja í veiðum og vinnslu  sjávarfangs jukust um 31 milljarð í fyrra samanborið við árið á undan. Tekjurnar námu 389 milljörðum króna í fyrra til  samanburðar við 358 milljarða króna árið áður. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Þessar tekjur skiluðu sér þó ekki í hærri rekstrarhagnaði fyrir afskriftir (EBITDA) sem lækkaði lítillega milli ára. Þannig nam EBITDA 79,8 milljörðum árið 2012 borið saman við 79,9 milljarða króna árið áður. Hlutfall EBITDA af tekjum dróst því saman milli ára og nam 20,5% miðað við 22,3% árið áður.

Vinnsla fremur en veiðar skýra tekjuaukann Tekjuaukningin milli ára skýrist að mun meira leyti af tekjuaukningu vinnslu en veiða. Þannig námu tekjur fiskvinnslu 224 milljörðum króna árið 2012 og jukust um 25,5 milljarða milli ára. Tekjur fiskveiða námu hins vegar 164 milljörðum og jukust um 5,3 milljarða. EBITDA-framlegð fiskvinnslu nam 38,6 milljarða króna og jókst um 1,8% á milli ára en til samanburðar jukust tekjur um 12,8% milli ára. Tekjuaukinn skilaði sér því ekki nema að litlu leyti í auknum rekstrarbata. Aukinn kostnaður skýrist að mestu leyti af hærri hráefniskostnaði sem jókst um 16,7 milljarða króna milli ára.

EBITDA fiskveiða dróst saman þrátt fyrir tekjuauka Tekjuauki í fiskveiðum náði hins vegar ekki að skila hærra EBITDA sem nam 41,1 milljörðum árið 2012 og dróst saman um 800 milljónir króna milli ára. Minni rekstrarafgangur skýrist fyrst og fremst af auknum olíukostnaði útgerðarinnar sem jókst um 4,4 milljarða króna milli ára eða um sem nemur 83% af tekjuaukanum.