Sænskur gerðardómur í deilu Norðuráls og HS Orku verður að skila niðurstöðu fyrir septemberlok. Þetta kemur fram í hálfsársuppgjöri HS Orku sem birt var í lok síðustu viku. Deilan snýst um afhendingu orku og það verð sem fyrirtækið á að greiða fyrir hana. Gerðardómurinn tók hana fyrir 24-27 maí síðastliðinn.

Norðurál stefndi HS Orku 19. júlí 2010 vegna ágreinings um túlkun ákvæða samninga félaganna um orkuöflun fyrir álverið í Helguvík sem Norðurál vonast til að geta byggt. Norðurál vill að HS Orka standi við samninginn eins og hann var gerður árið 2007 og afhendi sér orku í samræmi við hann. Stjórnendur HS Orku eru ekki sammála túlkun Norðuráls um magn raforku sem á að afhenda og hvaða verð eigi að greiða fyrir hana. Í árshlutareikningi HS Orku segir að "Óvissa er uppi um niðurstöðu gerðardómsins, sem leiðir til óvissu um hvort raforkan verði seld til álversins eða til annarra viðskiptavina".