Nikkei-hlutabréfavísitalan féll um 2,6% í kauphöllinni í Tókíó í Japan í nótt. Þetta var fyrsti viðskiptadagurinn í kauphöllinni þar á nýju ári og skýrist gengisfallið af hagnaðartöku fjárfesta. Gengi hlutabréfa hækkaði talsvert í Japan í fyrra eða um 57%, að því er fram kemur í umfjöllun breska útvarpsins ( BBC ) af þróuninni á asískum hlutabréfamörkuðum í dag.

Nokkrir þættir skýra kátinuna í kauphöllinni í Tókíó í fyrra, að sögn BBC, sem telur til ýmsar aðgerðir stjórnvalda sem blésu lífi í staðnað efnahagslíf, gengislækkun japanska jensins, s.s. 20% lækkun gagnvart Bandaríkjadal, sem hefur styrkt útflutning og fleira til.

Fjármálasérfræðingar segjast í samtali við BBC bjartsýnir á að japanski seðlabankinn muni halda áfram að styðja við efnahagslífið og geti það skilað sér í allt að 20% hækkun hlutabréfavísitölunnar á þessu ári.