Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office (SFO), og embætti sérstaks saksóknara framkvæmdi ítarlegar húsleitir og handtók níu manns í Reykjavík og London í morgun. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að rannsóknin sé á vegum SFO og snúist um innlánasöfnun Kaupþings Edge og  útlán Kaupþings til Robert Tchenguiz.

Leitað var á tíu stöðum í London og sjö manns handteknir. Þeir eru á aldrinum 42 til 54. Samkvæmt heimildum vísi.is er Sigurður Einarsson meðal þeirra handteknu. Þá hafa bræðurnir Robert og Vincent Tchenguiz einnig verið handteknir. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Ármann Þorvaldsson, fyrrum bankastjóri Kaupþing Singer& Friedlander, hafi verið einn þeirra sem handteknir voru í London.

Leitað var á tveimur heimilum í Reykjavík og tveir karlmenn, 42 og 43 ára handteknir og færðir til yfirheyrslu. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þeir hafi ekki verið á meðal æðstu yfirmanna Kaupþings.

Húsleitirnar og handtökurnar tengjast rannsókn efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar á útlánum Kaupþings. Húsleitirnar hér í Reykjavík tengjast þeim einnig.Upplýsingafullutrúi SFO í London sagði í samtali við Viðskiptablaðið að ekki sé búist við að farið verði fram á gæsluvarðhald yfir einhverjum þeirra sem voru færðir til yfirheyrslu. Þeir verði líklegast frjálsir ferða sinna að þeim loknum.

Bjarki Diego, sem gegndi starfi framkvæmdastjóra útlánasviðs Kaupþings, og Guðni Níels Aðalsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárstýringar bankans, voru handteknir í tengslum við rannsóknina í morgun. Guðni Níels var handtekinn í London.