Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, afhenti í dag níu starfsmönnum Kópavogsbæjar sérstaka viðurkenningu fyrir dygg og góð störf í þágu bæjarins í 25 ár.

Af þessu tilefni var starfsmönnum bæjarfélagsins boðið til móttöku og til að þiggja léttar veitingar. Þar voru þessir níu starfsmenn heiðraðir og þeim afhent gullúr í viðurkenningar- og þakklætisskyni.

Starfsmennirnir eru þessir: Einar Sigurðsson, byggingarfulltrúi, Eiríkur Leifsson, Íþróttahúsi Digranesskóla, Guðríður Benediktsdóttir, leikskólanum Efstahjalla, Guðrún Árnadóttir, Bókasafni Kópavogsbæjar, Jóna Jónsdóttir, Hjallaskóla, Jóna Björg Jónsdóttir, leikskólanum Furugrund, Kristjana Magnúsdóttir, leikskólanum Kópasteini, Sigríður Ólafsdóttir, Hjallaskóla, og Þorbjörg Auður Þórðardóttir, leikskólanum Álfaheiði.

„Þetta er aðdáunarvert trygglyndi og mér er efst í huga þakklæti til alls þess fólks sem hefur lofað bæjarfélaginu og íbúum Kópavogs að njóta hæfileika sinna og eljusemi í svo ríkum mæli sem raun ber vitni,“ sagði Gunnar I. Birgisson í ávarpi sínu. „Mér er heiður að því að fá tækifæri til að afhenda fyrir hönd bæjarins gullúr sem viðurkenningu fyrir fórnfús störf í aldarfjórðung.“