Sælgætisgerðin Nói Siríus hagnaðist um 4 milljónir króna á síðasta ári samanborið við hagnað upp á 700 þúsund krónur árið 2012.

Heildarvelta félagsins var tæpir 2,8 milljarðar króna sem er um 7% aukning frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður var 122 milljónir króna samanborið við 95,8 milljónir árið áður. Eignir fyrirtækisins námu 2,4 milljörðum í árslok en skuldir voru 1,8 milljarðar. Nam eigið fé fyrirtækisins því um 580 milljónum króna.

Á árinu störfuðu að meðaltali um 157 starfsmenn hjá fyrirtækinu og námu heildarlaun og launatengd gjöld vegna þeirra 795,7 milljónum króna. Fjárfestingar í bifreiðum, vélum og tækjum námu 132 milljónum króna. Hluthafar í Nóa Siríusi voru 27 í árslok og áttu þrír yfir 10% hlut. Það eru Erna ehf. með 22,9% hlut, Lynghagi ehf. með 19,4% og Lyfjablóm með 13,3%. Finnur Geirsson er forstjóri Nóa Siríusar.