Nokia, finnska fjarskiptafyrirtækið, hefur hætt við að hefja samvinnuverkefni með Sanyo, japanska samskiptafyrirtækinu, eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að það myndi ekki vera skynsamlegt frá fjárhagslegum sjónarhóli. "Við teljum að það myndi ekki vera okkur í hag að gera samning sem myndi verða óarðbærari en fyrst var talið," segir Kai Öistämö, varaforseti Nokia.

Ákvörðunin er sú önnur mikilvæga sem nýr forstjóri Nokia, Olli-Pekka Kallasvuo, gerir á einni viku, í kjölfar 20 milljarða evra samruna við Siemens. Samningurinn við Sanyo snerist um samstarf á sviði CDMA farsímaframleiðslu og var tilkynnt um hann í febrúarmánuði síðastliðnum. Ef hann hefði orðið að raunveruleika hefði markaðshlutdeild fyrirtækjanna orðið yfir 20% í heiminum, eða jafnmikil og kóreska fyrirtækisins Samsung, sem er nú stærsti framleiðandi CDMA farsíma. CDMA er stærsti keppinautur GSM-kerfisins, sem er útbreiddast í heiminum.

Nokia er stærsti framleiðandi GSM símtækja í heiminum og seldi 34% þeirra 795 milljóna símtækja sem seldust árið 2005. Tilraun fyrirtækisins til að ná svipaðri fótfestu á CDMA-markaðinum mistókst hins vegar, en CDMA er notað víða í Bandaríkjunum, Japan, Indlandi, Suður-Ameríku, Kóreu og Kína. Hlutdeild CDMA-tækja í heildarfjölda framleiddra farsíma í heiminum hefur lækkað úr 21% á öðrum fjórðungi ársins 2004 í 18% á fyrsta ársfjórðungi 2006.

Í yfirlýsingu um málið sem Nokia sendi frá sér í gær sagði: "Auk þess sem fjármálalegt umhverfi CDMA kerfisins er almennt erfitt hefur nýleg þróun mála gefið til kynna að CDMA starfsemi á vaxandi mörkuðum geti orðið erfiðari en áður var talið." Þá var bætt við að Nokia myndi í framtíðinni starfa á öðrum CDMA mörkuðum, með sérstakri áherslu á Norður-Ameríku, en ráðgeri að draga úr eigin rannsóknum og framleiðslu á sviði CDMA fyrir apríl 2007.