Hlutabréf lækkuðu nokkuð í Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar hafa fjárfestar nokkrar áhyggjur af framgangi mála á fjármálamörkuðum.

Þá er einnig talið að björgunaraðgerðir ríkisstjórna muni lítil áhrif hafa á markaði til langs tíma litið.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði í dag um 3,4% en það voru bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins.

Þannig lækkuðu Credit Suisse um 8,8%, Barclays um 6%, Deutsche Bank um 8,4%, Societe Generale um 7,5% og Royal Bank of Scotland  um 5,7% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,5%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 3,1% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 3%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 3,1% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 3%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 3,3%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 3,1% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 8,3%.