Nordic eMarketing hefur verið valið sem eitt af fyrstu samstarfsaðilum Yahoo! vegna nýja vefgreiningartólsins þeirra. Tólið, sem áður hét Indextools en kallast nú Yahoo Web Analytics, er andsvar Yahoo! við Google Analytics.

Í tilkynningu kemur fram að frá og með 30. júlí  er Nordic eMarketing eitt 48 fyrirtækja í heiminum sem valið var til að vinna með Yahaoo við markaðssetningu tólsins. Nordic eMarketing er nú þegar með tæplega 150 viðskiptavini sem nota tólið og fer þeim fjölgandi. Meðal þeirra eru MBL.is, Actavis, Ja.is, vb.is, ag.gl, nextgenerationlearning.co.uk, nordicstore.com, waes.co.uk, Bradford and Bingley, Hitatchi.co.uk og fleiri.

Nordic eMarketing var stofnað fyrir tæpum fjórum árum, þó rekja megi sögu þess til 1997. Hjá fyrirtækinu starfa 14 starfsmenn í fjórum löndum og er fyrirtækið með skrifstofur á Íslandi, Englandi, Tékklandi og í Kína. Fyrirtækið sérhæfir sig í markaðssetningu á Internetinu og ráðgjöf við hönnun og val á vefkerfum. Meðal viðskiptavina fyrirtækisins má finna jafn ólíka viðskiptavini eins og Gistiheimilið í Breiðuvík og bankasamsteypuna Santader.