NordicPhotos hefur fest kaup á norska myndabankanum GV-Press. GV-Press mun starfa áfram í óbreyttri mynd en kaupin verða stökkpallur fyrir NordicPhotos inn á norskan markað. GV-Press myndabankinn var stofnaður árið 1988 af Gerd Verdu og er einn af stærstu myndasöluaðilum í Noregi, sérstaklega til tímarita. GV-Press er með umboð fyrir yfir 50 myndasöfn á norska markaðinum.

Í fréttatilkynningu segir að GV-Press sé fimmti myndabankinn sem NordicPhotos kaupir og sá fyrsti í Noregi, en áður hefur NordicPhotos keypt fjóra myndabanka í Svíþjóð á síðustu þremur árum. Þeir eru; Mira Bildarkiv og Ims Bildbyrå árið 2003, Tiofoto árið 2005 og Greatshots árið 2006 .

Markmið NordicPhotos er að vera leiðandi myndasöluaðili á Norðurlöndunum – bæði með sölu úr eigin myndasafni, og dreifingu á þeim myndum um allan heim – og með sölu erlendra myndasafna innan Norðurlandanna. Kaupin á GV-Press marka upphaf innreiðar NordicPhotos á norska markaðinn, og það af fullum krafti þar sem félagið hefur með kaupunum tryggt sér umboð fyrir 2,5 milljónir mynda úr hátt í 70 myndasöfnum, bæði frá Norðurlöndunum og annarsstaðar frá.

NordicPhotos, sem var stofnað í lok ársins 2000, er orðinn einn stærsti ljósmyndabanki Norðurlanda með ljósmyndir frá yfir 500 ljósmyndurum. 115.000 ljósmyndir eru komnar á stafrænt form og er hægt að finna þær á vefslóðinni www.nordicphotos.is. Auk þess að selja ljósmyndir úr eigin myndasafni sér NordicPhotos um sölu og dreifingu á erlendum myndasöfnum eins og Getty Images og AFP. Samanlagt býður NordicPhotos upp á tugi myndasafna og milljónir mynda til sölu. Hjá NordicPhotos starfa 17 starfsmenn á skrifstofum fyrirtækisins sem eru í Reykjavík, Stokkhólmi og nú Osló. NordicPhotos er einnig með 60 umboðsaðila sem selja og dreifa myndefni NordicPhotos í 85 löndum. Áætluð ársvelta NordicPhotos eftir kaupin er um 300 milljónir króna, samkvæmt því sem segir í tilkynningunni.