Norðurál og HS Orka hafa náð samkomulagi um það verð sem Norðurál greiði HS Orku fyrir orkuna í fyrirhugað álver í Helguvík. Samkomulagið mun væntanlega liðka fyrir samningum við Orkuveituna og Landsvirkjun um orku í álverið. Fréttastofa RÚV greinir frá í kvöld.

Samningaviðræður hafa staðið yfir frá því að gerðardómur komst að þeirri niðurstöðu undir lok síðasta árs að HS orka þyrfti að standa við samning sinn við Norðurál um að útvega álverinu í Helguvík raforku. Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði í ræðu á hátíðinni Ljósanótt um helgina að efnisleg niðurstaða lægi fyrir. Forsvarmenn bæði Norðuráls og HS Orku hafa dregið úr þessum ummælum.

Samkvæmt heimildum RÚV er það hins vegar rétt að efnisleg niðurstaða liggi fyrir. Samningurinn sé í lokavinnslu og allar líkur á að skrifað verði undir samning á næstu vikum.