Tvö verkefni standa upp úr að mati Sigurðar St. Arnalds, fyrrverandi stjórnarformanns Mannvits, en ferill hans í verkfræðigeiranum spannar fjörutíu ár.

„Norðurál er það verkefni sem mér þykir vænst um,“ segir Sigurður. „Ég tók þátt í Norðurálsverkefninu frá allra fyrstu skrefum þegar fjárfestirinn Kenneth Peterson beindi sjónum að Íslandi og ég var fenginn til að taka á móti fyrsta útsendara hans, James Hensel. Allt gekk upp og verksmiðjan var reist. Ég teiknaði sjálfur fyrstu hugmyndir að staðsetningu og fyrirkomulagi verksmiðjunnar á Grundartanga og því fylgdi mikil sköpunargleði. Síðan æxlaðist það þannig að ég átti mikinn þátt í að sameina íslenska krafta við að hanna og byggja þessa verksmiðju, sem varð afskaplega íslensk framkvæmd.“

Hann segir að Kárahnjúkar hafi verið risaverkefni, en að stærðin hafi ekki verið aðalmálið, því hann hafi tekið þátt í mörgum mjög stórum verkefnum, erlendis og hérlendis. „Það sem var óvanalegt hvað varðar mitt hlutverk við Kárahnjúka var að ég tók að mér að vera opinber talsmaður verkefnisins fyrir Landsvirkjun og stjórna kynningarstarfinu. Einu sinni hét það að vera blaðafulltrúi. Landsvirkjun valdi að nota mjög reyndan verkfræðing í þetta hlutverk, sem þekkti svona verkefni út og inn, ekki bara tæknilega heldur líka umhverfislega og samfélagslega.“

Ítarlegt viðtal er við Sigurð í Viðskiptablaðinu. Hægt er að nálgast blaðið hér .