Norsku viðskiptavefirnir slá því upp á forsíðum sínum í dag að Norðmaðurinn, Svein Harald Øygard, eigi tímabundið að gegna stöðu Seðlabankastjóra á Íslandi.

„Hann á að leiða Ísland út úr krísunni," segir til dæmis í fyrirsögn á forsíðu vefjarins e24.no . Í fyrirsögn viðskiptavefjar Dagens Næringsliv segir: „Norðmaður á að bjarga Íslandi."

Á vefjunum er starfsferill Øygards rakinn og  e24.no tekur viðtal við vin hans sem gefur honum  góð meðmæli.

„Hann er afar duglegur maður sem skilur örugglega vandamál Íslands betur en margir Íslendingar," er haft eftir Harald Magnus Andreassen, hagfræðingi hjá  First Securities. Hann er sagður þekkja  Øygard mjög vel.

Norski viðskiptavefurinn segir að Øygard komi úr vel launuðu starfi hjá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey. Hann hafi verið með 5,3 milljónir norskra króna í skattskyldar tekjur á síðasta ári.

Ráðinn tímabundið samkvæmt bráðabirgðaákvæði í Seðlabankalögum

Svein Harald Øygard er ráðinn tímabundið í stöðu Seðlabankastjóra samkvæmt bráðabirgðaákvæði í nýsamþykktum lagaákvæðum um Seðlabanka Íslands. Arnór Sighvatsson, sem hefur verið aðalhagfræðingur bankans, verður tímabundið aðstoðarbankastjóri.

Í bráðabirgðaákvæðinu segir að með gildistöku laganna sé bankastjórn Seðlabanka Íslands lögð niður „og þar með embætti þriggja bankastjóra sem sæti eiga í stjórninni, þ.m.t. embætti formanns bankastjórnar."

Síðan segir í ákvæðinu að forsætisráðherra skuli svo fljótt sem við verði komið auglýsa nýtt embætti seðlabankastjóra og nýtt embætti aðstoðarseðlabankastjóra laus til umsóknar samkvæmt lögunum.

Þar til skipað hefur verið í stöðurnar, samkvæmt auglýsingu, skal forsætisráðherra hins vegar skv. ákvæðinu setja menn í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra.

Hér má sjá nýsamþykktar lagabreytingar um Seðlabanka Íslands.