Norska ríkið undirbýr nú einkavæðingu á fasteignafélaginu Entra Holding AS, en eignir félagsins nema alls um 25 milljörðum norskra króna, andvirði um 480 milljarða íslenskra króna. Félagið á einkum skrifstofubyggingar og þar á meðal er hæsta skrifstofubygging Noregs.

Í frétt Wall Street Journal segir að norska ríkið sé með þessu að stíga fyrsta skrefið í átt að því að minnka eignarhlut ríkisins í norskum fyrirtækjum. Ríkið á nú um þriðjung af skráðum hlutabréfum í norsku kauphöllinni.

Forstjóri Entra, Klaus-Anders Nysteen, segir í samtali við WSJ að ekki sé ljóst hvaða leið verði farin við söluna, en að skráning hlutabréfa í félaginu sé líkleg. Hins vegar gæti ríkisstjórnin ákveðið að selja fyrirtækið beint.