Norski olíusjóðurinn hefur selt öll ríkisskuldabréf útgefin af ríkissjóðum Portúgals og Írlands. Einnig hefur sjóðurinn selt verulegan hluta af eign sinni í spænskum og ítölskum ríkisskuldabréfum.

Olíusjóðurinn er um 600 milljarðar dala að stærð. Mátturinn sjóðsins sést best á því að hann á um um 2% allra hlutabréfa í Evrópu.

Um 40% af sjóðnum er í skuldabréfum. Að undanförnu hefur sjóðurinn selt rúmlega 80 milljarða Íkr.eign í írskum ríkisskuldabréfum og 15 milljarða íkr. eign sína í portúgölskum ríkisskuldabréfum. Jafnframt hefur sjóðurinn minnkað eign sína í ítölskum ríkisskuldabréfum um 60-65% á rúmu ári.

Ástæðan fyrir sölunni er að hluta hægt að rekja til meðferðarinnar sem kröfuhafar Grikklands fengu hjá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir skömmu.

Forsvarsmenn olíusjóðsins eru sérlega ósáttir við að Evrópski seðlabankinn, Fjárfestingabanki Evrópu og mögulega fleiri opinberir aðilar skyldu ekki tapa kröfum sínum í sama hlutfalli og aðrir skuldabréfaeigendur.

Forsvarsmennirnir voru einnig ósáttir við að þrátt fyrir að þrátt fyrir að kjósa gegn niðurfellingunni hafi sjóðurinn tapað um 54% af kröfum sínum á gríska ríkið.

Samkvæmt fjárfestingastefnu sjóðsins, sem er samþykkt af norska fjármálaráðherranum, mun sjóðurinn á næstunni minnka stöður sínar í evrópskum skuldabréfum um 33% og evrópskum hlutabréfum um 15%.

Er það til marks um að skuldir Evrópuríkja eru ekki góður fjárfestingakostur, að mati Norðmanna.