Olíusjóður Noregs hefur á síðustu mánuðum bætt verulega í fjárfestingar á fasteignamarkaði. Í samanburði við sama tímabil árið áður þá jukust fjárfestingar á fasteignamarkaði tífalt milli ára á tímabili sem endaði í marsmánuði. Financial Times greinir meðal annars frá kaupum sjóðsins á skrifstofuhúsnæði í Bandaríkjunum fyrir 600 milljónir dala og yfirtöku á höfuðstöðvum Credit Suisse í Zurich.

Um 37,6 milljarðar norskra króna, eða um 6,5 milljarðar dollara, af eignum norska olíusjóðsins eru bundnir í fasteignum. Það er  ðeins um 0,9% af heildarstærð sjóðsins sem telur 720 milljarða dollara. Það er markmið sjóðsins að 5% af fjárfestingum séu í fasteignum. Aukning milli ára þykir veruleg hvað fasteignakaup varðar, en í lok september var 0,3% af fjármunum bundinn í fasteignum.