Norski seðlabankinn ákvað að hækka stýrivexti um 25 punkta í 2,75% á miðvikudaginn. Þetta er í fjórða skiptið síðustu tólf mánuði sem norski seðlabankinn hækkar vexti. Til samanburðar eru stýrivextir á Íslandi 12,25%.

Greiningardeild Kaupþings banka segir þenslumerki í norska hagkerfinu og að hækkanir heimsmarkaðsverðs olíu hafa aukið umtalsvert tekjur norsks olíuiðnaðar og stuðlað að þenslu í efnahagslífinu.

"Atvinnuleysi í Noregi mælist 2,8% og hefur ekki verið lægra síðan í lok árs 2001 enda hafa olíufyrirtæki stóraukið ráðningar," segir greiningardeildin.

"Útlánavöxtur hefur ekki vaxið meira síðastliðin 18 ár og nam tólf mánaða aukningin 13,9% í mars. Norski seðlabankinn spáir að hagkerfið að olíuiðnaði slepptum vaxi um 3,5% á árinu eftir að hafa vaxið um 3,75% á árinu á undan."

Greingardeildin segir að væntingar markaðsaðila hafi verið blendnar og að sérfræðingar hafi ýmist búist við óbreyttum vöxtum eða 25 punkta hækkun eins og raunin varð.

"Þrátt fyrir merki um þenslu var kjarnaverðbólga, það er verðbólga án orkuverðs og skatta, aðeins 0,8% í apríl á meðan markmið seðlabankans miðast við 2,5%. Því mun seðlabankinn halda vöxtum tiltölulega lágum enn um sinn þar til verðbólgan fer að nálgast markmið bankans," segir greiningardeildin.