Fjármálaráðherrar Norðurlandanna vilja stöðva skattaflótta. Ráðherrarnir skrifuðu á fréttamannafundi í Ósló undir tvíhliða samninga við Isle of Man. Samningurinn felur í sér miðlun upplýsinga sem veitir skattayfirvöldum aðgang að upplýsingum um innistæður og tekjur skattskyldra þegna.

Norræna ráðherranefndin um efnahags- og fjármálastefnu skrifaði, á fréttamannafundi í tengslum við fund sinn í Ósló þann 30. október, undir samning við Isle of Man.

Við erum mjög ánægðir með norrænt samstarf í samningaferlinu sem hefur haft í för með sér samning um miðlun upplýsinga við Isle of Man, en stjórnvöld þar hafa verið mjög viljug til samstarfs. Við munum leggja enn meiri áherslu á samningagerðina og markmiðið er að gera ámóta samninga við önnur lögsagnarumdæmi sem okkur finnst ástæða að skiptast á upplýsingum við, til þessa að koma í veg fyrir flótta skattskyldra þegna. Til lengri tíma litið getur verið um talsverðar upphæðir að ræða fyrir Norðurlöndin, sem geymdar eru víðs vegar um heiminn, segja norrænu ráðherrarnir í sameiginlegri yfirlýsingu.

Í þeim tilgangi að fylgja eftir því starfi sem OECD hefur unnið á þessu sviði á alþjóðavettvangi tóku Norðurlöndin ákvörðun árið 2006 að hefja samningaviðræðir við fjármálamiðstöðvar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Samningurinn við Isle of Man er fyrsta skrefið í umfangsmiklu starfi sem nú þegar tekur til samningaviðræðna við Arúba, Jersey og Hollensku Antillaeyjarnar.

Fjármálaráðherrarnir ræddu skýrsluna "Skilvirkari marghliða aðgerðir á Eystrasaltssvæðinu og í nágrenni þess" og umfjöllun í henni um hlutverk fjölþjóðlegra stofnana í okkar hluta Evrópu. Í skýrslunni eru tillögur um öflugra norrænt samstarf innan þessara stofnana. Að lokinni nánari greiningu og rannsóknavinnu verður framkvæmdaáætlun fyrir þetta markmið lögð fyrir ráðherrana til samþykktar á næsta ári.

Fjármálaráðherrar Norðurlandanna ræddu um loftslagsmál, á grundvelli loftslagsráðstefnunnar sem haldin verður á Balí dagana 10.-11. desember 2007, yfirstandandi vinnu sem á sér stað innan ESB um heimildir til losunar koltvísýrings. Samstaða var um að fjármálaráðherrar og fjármálaráðuneytin á Norðurlöndum gegndu mikilvægu hlutverki hvað þetta varðar og stefnt er á nánara samstarf á þessu sviði.

Ráðherrarnir ræddu einnig um norræna orkumarkaðinn sem af mörgum er talinn sá skilvirkasti í heimi. Umræðurnar snertu stefnumótandi stjórnunaraðferðir eins og t.d. samhengið milli verðs og notkunar og kosti og galla aukinnar samhæfingar. Meðal annars var rætt um aukna samhæfingu raforkumarkaðanna. Mikill munur á skattlagningu var nefnd sem ein af aðalástæðunum fyrir frekari samhæfingu.

Fjármálaráðherrarnir ræddu á fundi sínum skýrsluna "Hreyfanleiki á norrænum vinnumarkaði" sem fjallar um þá sem sækja vinnu yfir landamæri. Ráðherrarnir voru sammála um að jafnvel þó samræming á milli landa hafi gengið vel væri ástæða til að skoða sérstaklega þær kerfishindranir sem enn eru til staðar og hindra hreyfanleika á vinnumarkaði.