Hlutabréf Norwegian air eru nú í frjálsu falli vegna óvissu um að norska flugfélagið lifi yfirstandandi kórónufaraldur af. Bréfin féllu um rúmlega fjórðung í dag, og verð þeirra er nú um þriðjungur af því sem það var fyrir tveimur vikum. Guardian greinir frá.

Lausafjárstaða félagsins er sögð veik, og í gær var afkomuspá félagsins afturkölluð, ásamt því að hætt var við 22 vorflug vegna ónógrar eftirspurnar.

Félagið hafði lengi átt í erfiðleikum, en hafði tekist að rétta þokkalega úr kútnum það sem af er þessu ári, að sögn greiningaraðila. Útbreiðsla kórónufaraldursins hafi hinsvegar þurrkað þann árangur út, og gott betur, er fram fer sem horfir.

Faraldurinn hefur komið mjög illa við rekstur flugfélaga um allan heim. Mörg þeirra hafa reynt að bregðast við með fækkun flugferða og öðrum kostnaðaraðgerðum, en að meðaltali hafa flugfélög misst fjórðung markaðsvirðis síns síðan faraldurinn hófst.