Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian Air mun hefja beint flug frá Osló til New York næsta sumar þegar félagið fær afhenta sínu fyrstu Boeing 787 Dreamliner flugvél. Þá mun félagið einnig hefja beint flug frá Stokkhólmi til New York. Fyrst um sinn verður flogið tvisvar í viku frá hvorum stað en í lok júní verður fjölgað um eitt flug og flogið þrisvar í viku.

Bjørn Kjos, forstjóri og stærsti eigandi Norwegian Air, tilkynnti þetta á blaðamannafundi fyrir helgi.

Norwegian á átta Dreamliner vélar pantaðar og fær þrjár þeirra afhentar á næsta ári og fjórar vélar árið 2014. Í fyrravor keypti félagið þrjár pantanir Icelandair Group á Dreamliner vélum sem útskýrir af hverju félagið fær svona margar vélar á næstu tveimur árum.

Þá hefur Norwegian einnig tilkynnt að félagið hyggist fljúga frá Osló og Stokkhólmi austur til Bangkok í Tælandi.

Samkeppninni er fyrst og fremst beint gegn SAS sem þegar flýgur til allra fyrrnefndra staða. Þá mun ný áætlun félagsins væntanlega hafa einhver áhrif á Icelandair sem er þegar í harðri samkeppni um flug frá Skandinavíu til austurstranda Bandaríkjanna, bæði við SAS og önnur bandarísk flugfélög sem fljúga beint frá New York til Osló, Stokkhólms og Kaupmannahafnar. Þá flýgur Delta Air Lines sem kunnugt er á milli New York og Keflavíkur yfir sumartímann.