Á vef Félags íslenskra bifreiðaeigenda er greint frá því og vitnað í netútgáfu sænska dagblaðsins Expressen að vísindamenn, sem rannsaka öryggi bíla, hafa fram undir þetta notað lík í árekstursprófunum. Líkin eru notuð til að fá betri sýn á hvernig fólk slasast í árekstrum. Tilgangurinn er sá að hægt sé síðan að búa til betri árekstursdúkkur og mælitæki í þær. Claes Tingvall stjórnarformaður EuroNCAP árekstursprófunarstofnunarinnar og umferðaröryggisstjóri sænsku vegagerðarinnar staðfestir þetta í samtali við dagblaðið.

„Við vissar aðstæður er nauðsynlegt að nota raunverulega mannslíkama til að fá úr því skorið hvernig manneskja kastast til í bíl við árekstur,“ segir Tingvall sem er læknir að mennt. Sjálfur starfaði hann við slíkar tilraunir í Ástralíu á árunum 1998-2001 þar sem mannslík voru notuð. Hann segir enga ástæðu til að hneykslast yfir þessu og fyrir hann sjálfan að þegja yfir því. Eðlilegt sé að greina frá hlutunum eins og þeir séu. Að nota lík í þessum tilgangi geti mörgum þótt ógeðfellt, en málið snúist um vandaðar rannsóknir sem geti bjargað mannslífum síðar meir. Rannsóknirnar komi öllum bílaiðnaðinum og bílakaupendum til góða.