Aranja var stofnað árið 2014 af þeim Ægi Giraldo Þorsteinssyni og Eiríki Heiðari Nilssyni, en á þeim tíma unnu þeir sem einyrkjar. Þegar verkefnum fór að fjölga réðu þeir til sín starfsfólk og stofnuðu Aranja utan um verkefnin. Síðan þá hefur Aranja stækkað hægt og bítandi og starfa nú 18 einstaklingar hjá félaginu, en fjölgar í 21 á næstu vikum.

„Við sérhæfum okkur í nýsmíði vefsíðna og vefkerfa, og ráðgjöf tengt því," segir Bryndís Alexandersdóttir, framkvæmdastjóri hjá Aranja. Félagið hefur meðal annars komið að þróun á Nova appinu og Ísland.is appinu og hefur verið leiðandi í þróun hjá Stafrænu Íslandi. Auk þess hafa fyrirtæki eins og Bláa Lónið, Sjóvá og GRID fengið Aranja til að útfæra verkefni fyrir sig.

„Við erum núna að vinna að verkefni fyrir bandaríska frumkvöðlafyrirtækið Yohana," en verkefnið sem um ræðir er áskriftarþjónusta sem býður notendum upp á persónulegt aðstoðarfólk. „Yohanna tengir notendur við persónulegt aðstoðarfólk fyrir mánaðarlegt viðráðanlegt gjald. Aðstoðarfólkið vinnur svo með notandanum eftir þörfum hans."

Verðlaunuð fyrir Hopp

Aranja hlaut tvenn verðlaun á íslensku vefverðlaununum, annars vegar fyrir fyrirtækjavef ársins í flokknum lítil fyrirtæki, fyrir rafskútu- og nú deilibílaleiguna Hopp, fyrirtæki sem varð einmitt til innan veggja Aranja. Félagið fékk einnig verðlaun fyrir verkefni sem fyrirtækið vann fyrir Google Quantum AI. „Þar smíðuðum við tvo gagnvirka örvefi sem höfðu þann tilgang að upplýsa almenning um starfsemi Google Quantum og til að vekja áhuga fólks á svokallaðri skammtafræði og skammtatölvum."

Í desember síðastliðnum var haldin svokölluð „Hack week", eða vikulangt hakkaþon, innan fyrirtækisins. Þá var heil vika tekin í hvíld frá hefðbundnum verkefnum og unnið þess í stað að því að þróa nýjar lausnir byggðar á hugmyndum sem höfðu orðið til innanhúss. „Það er mikil fjárfesting að taka frá heila viku með vel á annan tug forritara að vinna við gæluverkefni." Hún segir að nokkrar hugmyndirnar séu það góðar að þær muni halda áfram í þróun sem gæti leitt til sprotafyrirtækja eins og Hopp.

Opið launakerfi

Aranja er með launastefnu sem felur í sér enga launaleynd. Launataflan er uppfærð árlega og þar geta allir starfsmenn séð laun annarra samstarfsfélaga. Bryndís útskýrir launastefnuna þannig að starfsfólk félagsins fari í það þrep sem það tilheyrir út frá þekkingunni sem það hefur. „Launin eiga ekki að vera eitthvað sem þú hugsar reglulega um. Við viljum að starfsfólkið sé sátt en við hækkum starfsfólk á milli þrepa með aukinni reynslu og frammistöðu."

Hún bætir við að vinnutíminn sé styttri en gengur og gerist almennt á vinnumarkaði. „Við erum með sjö tíma vinnudag og bjóðum upp á margvísleg fríðindi, t.d. heilsuræktarstyrki og vellíðunarstyrki sem hægt er að nýta fyrir nudd eða tíma hjá sálfræðingi, svo eitthvað sé nefnt."

Aranja er með svokallað „partner track", en það felur í sér að starfsmenn sem hafa starfað lengi hjá fyrirtækinu geti endað í eigendahópi félagsins. „Þeir starfsmenn sem standa sig vel og hafa starfað hjá Aranja lengi geta endað í meðeigendahópi, sem er ákveðin gulrót. Fyrirtækinu gengur vel og þá er frábært að eiga hlut í því," segir Bryndís.

Nánar er fjallað um Aranja í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .