Í dag hóf Nova að bjóða 4G þjónustu í farsíma, fyrst íslenskra símafyrirtækja, að því er kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Í apríl hóf Nova að bjóða upp á 4G þjónustu, en hún var þá bundin við 4G box, hnetu eða pung og 4G spjaldtölvur.

Í tilkynningunni segir að 4G styðji 10 sinnum meiri hraða en hefðbundið 3G samband, þrefalt meiri hraða en ADSL og sé sambærilegt við ljósleiðara eða um 20 – 40 Mb/s hraða til notenda.

Fyrsti 4G farsíminn sem Nova leggur áherslu á er Samsung Galaxy S4 en fljótlega mun úrval 4G farsíma aukast til muna og þróunin verða svipuð og var við breytinguna úr GSM yfir í 3G síma, er haft eftir Liv Bergþórsdóttur, framkvæmdastjóra Nova í tilkynningunni.

Samsung S4 hefur verið mjög vinsæll sími hér á landi og því stór hópur fólks sem getur nú þegar fengið 4G í símann sinn. Þá lækkar Nova af þessu tilefni verðið á Samsung S4 um 20.000 kr í dag.

4G farsímaþjónusta kostar það sama og 3G farsímaþjónustu hjá Nova og þar sem ekki er 4G samband skiptir farsíminn sjálfkrafa yfir á 3G samband.

Þá segir í tilkynningunni að 4G fyrir iPhone veri vonandi í boði síðar á árinu en að það sé undir Apple komið hvenær það gerist.