Nova er næst stærsta farsímafyrirtæki landsins með 33,4% markaðshlutdeild. Síminn er ennþá stærstur en markaðshlutdeild hans er 35,3%. Vodafone er með 26,8% og 365 er með 3,2% markaðshlutdeild. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Póst og fjarskiptastofnun .

Bilið milli stærstu tveggja fyrirtækjanna er núna 1,9% og fer minnkandi. Árið 2013 var Síminn með 37% og Nova með 30,1%, eða 6,9% munur.

Viðskiptavinir Nova virðast nota símana meira en viðskiptavinir annarra fyrirtækja. Nova er efst í flokkunum heildarfjöldi mínútna með 37,7%. Nova er einnig lang efst þegar kemur að fjölda sendra SMS skilaboða með 64,8% og fjölda MMS skilaboða 53,1%. Viðskiptavinir Nova nota einnig netið í farsímanum mest en 65,5% alls gagnamagns var sótt af viðskiptavinum Nova.

Athugasemd: Póst og fjarskiptastofnun hefur gefið út uppfærða skýrslu þar sem markaðshlutdeild Vodafone er hækkuð úr 23,9% í 26,8%. Fréttin hefur verið leiðrétt í samræmi við nýjar tölur Póst og fjarskiptastofnunar.