Pólska símafélagið Netia greindi frá því í gær að íslenski fjárfestingasjóðurinn Novator hefur áhuga á að auka hlut sinn í félaginu í 33%. Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur eignast um 23% hlut í Netia og félagið hefur sagt að það hafi áhuga á að eignast um 25% hlut í Netia.

Í síðustu viku sagði Novator að engar fyrirtætlanir væru um það að auka hlutinn yfir 25%, en félagið gerði almennum hluthöfum kauptilboð í hluti í allt að 25% eftir að hafa eignast 13,1% hlut í félaginu á síðasta ári. Talsmaður Novators sagði í samtali við Viðskiptablaðið að félagið eygir möguleika á því að eignast allt að 33% mínus einn hlut á næstu tólf mánuðum, en að Novator myndi ekki kaupa meira en 33% hlut þar sem yfirtökuskylda myndast við þann þröskuld. Samkeppnisyfirvöld í Póllandi gætu þurft að gefa leyfi fyrir því að Novator eignist allt að 33% hlut í Netia.

Fjármálasérfræðingar velta því fyrir hver stefna Novators sé í fjárfestingum í símafélögum í Mið- og Austur-Evrópu, hvort að félagið stefni að því að afskrá og sameina nokkur félög, til dæmis Netia og Bulgarian Telecommunications Company.

Novator hefur eignast kaupréttinn af 65% hlutafjár í BTC, og er talið um að heildarhluturinn sé í kringum 75%. Reiknað er með samþjöppun á símamarkaði á svæðinu, vestur-evrópsk félög eins og Telekom Austria og Deutsche Telekom hafa sótt þangað, og eins gæti farið svo að fjárfestingarnar séu byggðar upp með því sjónarmiði að selja til annarra fyrirtækja ef spár um samþjöppun verða að veruleika, segja sérfræðingar.

Novator á 70% hlut í farsímaarmi Netia, P4. Einnig er félagið ráðandi hluthafi í farsímaarmi BTC, Vivatel. Novator hefur sérhæft sig í fjárfestingum í síma- og fjarskiptafyrirtækjum og hefur meðal annars fjárfest í gríska internetfyrirtækinu Forthnet, tékkneska fjárskiptafyrirtækinu Ceske Radiokomunicace, sem er eigandi T Mobile farsímafyrirtækisins í Tékkalandi. Novator er einnig stærsti hluthafinn í finnska símafyrirtækinu Elisa.