Novator Finland hefur gert tilboð í öll hlutabréf í finnska símafyrirtækinu Saunalahti. Novator Finland er dótturfélag Novator International Ltd, sem er fjárfestingafélag undir forystu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Saunalahti er skráð í Kauphöllinni í Helsinki. Tilboðið hljóðar upp á 1,9 evru á hlut sem þýðir að heildarverðmæti fyrirtækins er 259,15 milljónir evra eða um 21,5 milljarður króna. Þegar hefur Novator Finland eignast 22,6% í félaginu

Saunalathi hefur á undanförnum árum leitt samkeppni á finnska farsímamarkaðinum. Á tveimur árum hefur fyrirtækið náð um 10% markaðshlutdeild og er með yfir 430 þúsund áskrifendur. Auk þess býður fyrirtækið upp á háhraðatengingar til fyrirtækja. Áætluð velta félagsins á þessu ári er 231 milljón evra eða um 19,1 milljarður króna. Hagnaður fyrir afskriftir og skatta er áætlaður um 20 milljónir evra eða rúmur 1,6 milljarður króna. Hagnaður eftir skatt er áætlaður um 10,8 milljónir evra eða nærri 900 milljónir króna.

Í fréttatilkynningu sem gefin var út í Helsinki í dag kemur fram að fjárfestar sjái að með kaupunum opnist tækifæri á að komast inn á einn öflugasta farsímamarkað í veröldinni og að þekking og reynslu starfsmanna fyrirtækisins geti nýst við uppbyggingu á alþjóðlegu símafyrirtæki.