Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, fjárfesti 10 milljónum evra, sem nemur tæplega 1,5 milljörðum króna í írska leikjafyrirtækinu Vela Games að því er The Times greinir frá.

Novator var leiðandi fjárfestir í svokallaðri A fjármögnunarumferð félagsins þar sem Vela safnaði alls 14,1 milljón evra, um 2,1 milljarði króna. Meðal annarra fjárfesta í umferðinni voru Ubisoft Entertainment, útgefandi tölvuleiksins Assassin’s Creed og LVP.

Vela hafði áður safnað 6,1 milljón evra, um 900 milljónum króna samkvæmt umfjöllun The Times. Félagið sem stofnað var árið 2018 vinnur að þróun á sínum fyrsta tölvuleik en verkefnið gengur undir heitinu Project-V.

Novator hefur á undanförnum árum fjárfest í nokkrum fjölda tölvuleikjafyrirtækja þar á meðal félögum sem Íslendingar stýra á borð við CCP, Klang Games og Lockwood Publishing.