*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 23. maí 2018 19:00

Nox Medical lagði bandarískan risa

Íslenska svefnrannsóknarfyrirtækið Nox Medical bar sigur úr býtum í dómsmáli gegn bandaríska stórfyrirtækinu Natus.

Ritstjórn
Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, er að vonum ánægður með niðurstöðuna.
Haraldur Guðjónsson

Íslenska svefnrannsóknarfyrirtækið Nox Medical bar sigur úr býtum í dómsmáli gegn bandaríska stórfyrirtækinu Natus Inc. Samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu komst Kviðdómur í Delaware-fylki í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu að Natus Inc. hefði stolið hönnun Nox Medical. Þetta er eitt stærsta einkaleyfismál sem íslenskt fyrirtæki hefur staðið í og hleypur málskostnaður á hundruðum milljóna króna. Nox Medical hyggst nú höfða mál gegn Natus Inc. til að fá lögfræðikostnað vegna málsins greiddan.

Í tilkynningunni segir að kviðdómurinn hafi talið Natus brotið viljandi gegn skráðu einkaleyfi Nox Medical í Bandaríkjunum á hönnun lífmerkjanema sem notaður er við svefnrannsóknir. Þetta er í þriðja sinn sem Nox Medical hefur betur gegn Natus Inc. en áður höfðu Einkaleyfastofa Evrópu og Einkaleyfastofa Bandaríkjanna, staðfest einkaleyfi Nox Medical á lífmerkjanemanum.

„Þetta er gríðarlega mikilvægur sigur fyrir okkur. Við vorum tilneydd til að berjast fyrir hugverki okkar gegn mun stærra fyrirtæki og höfðum betur,“ segir Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical.

Natus veltir rúmlega 50 milljörðum króna á ári og er skráð á bandarískan hlutabréfamarkað.

„Þegar fyrirtæki á borð við Natus, stela viljandi, hugverki lítilla fyrirtækja þá búast þau ekki við að litlu fyrirtækin hafi bolmagn til að verja sig. Nox Medical hefur notið góðs af íslensku stuðningsumhverfi fyrir hugverkafyrirtæki og þetta er sannarlega okkar hugverk sem þeir reyndu að stela. Við litum á það sem ábyrgð okkar að sækja rétt okkar, þó um mun stærra fyrirtæki væri að ræða,“ segir Pétur Már. „Þegar íslensku hugverki er stolið á svona augljósan máta, þá má í raun líkja því við að erlend fiskiskip sigli inn fyrir íslenska landhelgi og seilist í okkar auðlindir og hirði úr þeim verðmæti. Við stöndum vörð um slíkan þjófnað.“

Sem fyrr segir hleypur málarekstur Nox Medical á hundruðum milljóna króna. „Ef ekki væri fyrir framúrskarandi rekstrarárangur okkar, þá hefðum við sannarlega ekki haft bolmagn til að standa vörð um þessa auðlind okkar sem í hugverkinu liggur. Þessi barátta hefur kostað okkur hundruð milljóna króna og er líklega eitt stærsta hugverkaréttarmál sem íslenskt fyrirtæki hefur háð,” segir Pétur Már.