Sund átti að auka trúverðugleika og fá þóknun fyrir að halda á hlutEignarhaldsfélagið Sund ehf., sem er í eigu ekkju og stjúpbarna Óla Kr. Sigurðssonar sem oftast var kenndur við Olís, kom inn í NTH-viðskiptafléttuna í lok árs 2006. Félaginu hefur á undanförnum árum aðallega verið stýrt af Jóni Kristjánssyni, stjúpsyni Óla, og Páli Þór Magnússyni sem er giftur Gabríellu, systur Jóns.

Tilgangur stjórnenda FL Group og Fons var að fá utanaðkomandi aðila að viðskiptunum til að auka trúverðugleika þeirra út á við og til að halda tímabundið á tæplega þriggja milljarða króna láni frá Glitni sem rann inn í NTH.

Í þeim gögnum sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum kemur skýrt fram að stjórnendur Sunds gerðu sér vel grein fyrir hvers eðlis viðskiptafléttan í kringum NTH var, að Sund gat ekki tapað á henni vegna sölutryggingar, að félagið fékk greitt um hálfan milljarð króna í þóknanir fyrir aðkomu sína að viðskiptunum og að ýmis önnur viðskipti voru undirliggjandi í því samkomulagi sem ríkti milli Sunds, FL Group, Baugs og Fons. Frá innihaldi þeirra viðskipta hefur lítið sem ekkert verið skýrt opinberlega.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .