„Á laugardag fyrir hvítasunnu var opnuð ný smurnings- og bensínafgreiðslustöð fjelagsins Shell við Laugaveg, fyrir innan Tungu. Er þetta stærsta og fullkomnasta bensínstöð á landinu.“

Þannig var Skeljungsstöðin við Laugaveg 180, „Næturvaktarstöðin“, kynnt til sögunnar í Morgunblaðinu í júnímánuði 1949 en stöðin fagnar nú 60 ára afmæli.

Í tilkynningu frá Skeljungi kemur fram að á þeim sextíu árum sem stöðin hefur verið starfrækt hefur að sjálfsögðu margt breyst og þarfir markaðarins kallað eftir nýjungum. Á síðasta ári hafi t.d. verið gerðar miklar endurbætur á húsakynnunum og versluninni breytt í Select -verslun.

Bensínstöðin er í dag líklegast þekktust sem sviðsmynd hinna vinsælu þátta Næturvaktarinnar, þar sem Georg Bjarnfreðarson stjórnaði stöðinni af röggsemi mikilli og dugði ekkert minna til þess en fimm háskólagráður!

„Við erum í hátíðarskapi hjá Skeljungi í dag og mjög stolt af „afmælisbarninu“ okkar,“ segir Einar Örn Ólafsson, nýráðinn forstjóri Skeljungs í tilkynningunni.

„Það er skemmtilegt fyrir mig að það skuli vera eitt af mínum fyrstu verkefnum að fá að fagna þessum áfanga í sögu félagsins með starfsfólki fyrirtækisins og viðskiptavinum okkar.“

Í tilefni tímamótanna verður sköpuð stemmning frá miðri síðustu öld og tónlist frá þeim tíma mun hljóma jafnt utan dyra sem innan. Starfsmenn verða prúðbúnir og fornbílar verða til sýnis og skrauts við stöðina.