Ný framkvæmdastjórn hefur tekið við hjá A.Karlssyni ehf. í kjölfar sameiningar við Besta ehf. Forstjóri er Linda Björk Gunnlaugsdóttir. Í tilkynningu fyrirtækisins kemur fram að Linda er með mikla reynslu úr atvinnulífinu þar sem hún starfaði sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála hjá Skeljungi og þar áður hjá Eimskipum í 10 ár þar af 3 ár sem framkvæmdastjóri hjá Eimskipum í Færeyjum.

Framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs er Guðmundur Hreiðarsson en hann hefur starfað með General Electric Healthcare í um 12 ár. Áður hjá Heklu og undanfarin tvö ár hjá A. Karlssyni með sérstaka áherslu á heilbrigðisgeirann. A. Karlsson býður víðtækt vöruúrval og þjónustu við heilbrigðisgeirann og býður mörg mjög þekkt vörumerki m.a. GE-Healthcare, Tyco, Ansell og mörg fleiri.

Framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs er Ingólfur Garðarsson en hann er viðskiptafræðingur með mikla reynslu úr smásölugeiranum þar sem hann meðal annars hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra hjá 3-Plus hf. Þar á undan gegndi hann ýmsum stjórnunarstöðum hjá Lyf og heilsu. Fyrirtækjasviðið þjónustar fyrirtækja-, hótel, skrifstofu og veitingamarkaðinum í búnaði og rekstrarvörum. A Karlsson býður mörg mjög þekkt vörumerki í eldhústækjum, húsgögnum, skrifstofuhúsgögnum og hreinlætisvörum. Undir fyrirtækjasviði mun Besta verið rekið áfram sem vel þekkt merki á hreinlætisvörumarkaðinum.

Fjármálastjóri er Melrós Eysteinsdóttir en hún er viðskiptafræðingur og hefur undanfarið starfað sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis. Hún hefur víðtæka reynslu úr fjármálageiranum og náði góðum árangri með sparisjóðina á Höfn og á Djúpavogi.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að mikil þekkingaruppbygging á sér stað þessa dagana í fyrirtækinu. Verið er að ráða inn fólk með meiri þekkingu en áður hefur þekkst innan fyrirtækisins. Gengið hefur verið frá samningum við nýja birgja með nýtískulegar vörur á heimsmælikvarða. Þessar vörur hafa ekki áður séð dagsins ljós á Íslandi og er kynning á þeim þegar hafin.

UAB Ilsanta

Ilsanta, sem er með starfsemi í Eystrasaltslöndunum, verður rekið sem sjálfstætt dótturfélag A.Karlssonar undir stjórn Gunnars Hinz framkvæmdastjóra. Gunnar er lyfjafræðingur að mennt auk þess sem hann er með BA gráðu í markaðs- og hagfræði frá IHR í Stokkhólmi. Gunnar hefur starfað hjá Ilsanta frá árinu 1995 en þá var hann ráðinn markaðsstjóri. Meginverkefni Gunnars var að stýra uppbyggingu og skipulagningu markaðsstarfsemi fyrirtækisins í Eystrasaltslöndunum þremur allt til ársins 2002 er hann tók við stöðu framkvæmdastjóra Ilsanta.

Sameinað fyrirtæki mun bjóða öflugar heildarlausnir í búnaði og rekstrarvörum fyrir fyrirtæki og stofnanir með áherslu á heilbrigðis-, hótel- og veitingageirana. Ársvelta sameinaðs félags er um 3 milljarðar og starfsmenn um 90.