Hótel Klaustur á Kirkjubæjarklaustri og Hótel Jökull á Hornafirði hafa stofnað til samstarfs innan nýrrar hótelkeðju sem ber heitið National Park Hotels. Markmið hins nýja félags er fyrst og fremst að auka samvinnu þessara hótela í markaðs- og sölumálum, einkum á erlendum mörkuðum, en hugmyndin að samstarfinu hefur verið að þróast í heimsfaraldrinum, að því er fram kemur í tilkynningu.

National Park Hotel ehf. hefur fengið útgefið leyfi frá Ferðamálastofu til reksturs ferðaskrifstofu undir hjáheitinu Iceland National Park Tours.

Fram kemur að National Park Hotel hafi hafið samstarf við afþreyingaraðila í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslum um sölu á margvíslegri afþreyingu fyrir gesti hótelanna og aðra ferðamenn svo að dvöl þeirra á svæðinu megi verða sem ánægjulegust.

Þá segir að það sé von félaganna sem standa að rekstri National Park Hotels að fleiri hótel sem starfa á svæðinu kringum Vatnajökulsþjóðgarð muni á næstu misserum sjá sér hag í því að koma inn í hið nýja markaðs- og sölusamstarf undir merkjum National Park Hotels.

Ný heimasíða keðjunnar er komin í loftið, nationalparkhotel.is, en þar má meðal annars finna upplýsingar um þau afþreyingarfyrirtæki sem eru í samstarfi við keðjuna.

National Park Hotels - Jökull
National Park Hotels - Jökull
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hótel Jökull í Hornafirði er hluti af National Park Hotels keðjunni.