Bókaverslunin eBækur opnar gátt sína í dag, en um stærstu bókaverslun landsins er að ræða. Það er fyrirtækið D3, sem starfrækt hefur Tónlist.is um árabil, sem stendur að versluninni, að því er segir í frétt Fréttablaðsins.

Rafbókaverslunin mun bjóða allar helstu rafbækur sem gefnar hafa verið út á íslensku auk hundraða þúsunda erlendra bókatitla. Fjöldi titla mun síðan vaxa jafnt og þétt á næstu misserum í takt við alþjóðlega þróun í bókaútgáfu, að sögn aðstandenda, sem bæta við að tilkoma eBóka sé svar við vaxandi eftirspurn eftir íslenskri rafbókaverslun.