Hewlett-Packard (HP), stærsta tölvufyrirtæki í heimi, hefur þróað nýja kynslóð fartölva með rafhlöðu sem endist í sólarhring.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að þessi mikla ending rafhlöðunnar þýði að ferðalangar geti farið tíu sinnum með lest milli Parísar og Lundúna og leikið sér í tölvunni allan tímann án þess að hlaða hana á milli.

Fyrirtækið segir þennan árangur í endingartíma rafhlöðunnar hafa náðst með samspili þróunar hjá HP og hjá framleiðendum ýmissa íhluta tölvunnar.

HP Illumi-Lite LED tölvuskjárinn eykur rafhlöðuendinguna um allt að fjórar klukkustundir og Intel SSD harði diskurinn eykur endingartímann um 7%, borið saman við aðra harða diska.

Sólarhringsending á rafhlöðunni fæst þó aðeins ef keypt er sérstök rafhlaða með HP EliteBook 6930p tölvunni. Tölvan kemur á markað í október.

BBC greindi frá þessu.