Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að ef nýsett reglugerð hans um kaup útlendinga á jörðum og fasteignum hérlendis hefði gilt á síðustu árum þá hefði Svisslendingurinn Rudolf Lamprecht aðeins getað keypt jarðir hér hefði hann lögheimili. Lamprecht hefur á síðustu tíu árum keypt sjö jarðir á Íslandi, að hluta eða öllu leyti.

Þetta er haft eftir Ögmundi í Fréttablaðinu í dag. Þar er fjallað um herta löggjöf sem segir að íbúum og lögaðilum sé óheimilt að kaupa jarðir eða fasteignir á Íslandi án þess að þeir hyggist setjast hér að eða stunda einhvers konar starfsemi. Fram kemur að Samtök atvinnulífsins skoði hvort reglurnar standist EES-samninginn en Innanríkisráðherra hefur sagt að tveir lögfræðingar staðfesti að lögin standist EES-samninginn.

Haft er eftir Ögmundi í Fréttablaðinu að Lamprecht hefði þurft að sækja um undanþágu, ef lögin hefðu gilt þegar hann keypti „Meiningin er ekki sú að erlendir peningamenn geti safnað jörðum á Íslandi sem hverri annarri fjárfestingu," segir Ögmundur og bætir við: „Eignarhald á landi og eignarhald á auðlindum undir landinu fer saman og það segir sig sjálft að mikilvægt er að halda eignarhaldi á auðlindum innan vébanda samfélagsins.“