Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að skipa nefnd til að ljúka heildarendurskoðun almannatrygginga og gera drög að frumvarpi til nýrra laga um lífeyrisréttindi.

Miðað er við að starfsgetumat komi í stað örorkumats  og að skoðaðir verði kostir og gallar þess að auka möguleika fólks til sveigjanlegra starfsloka ásamt einföldun á lífeyriskerfinu.

Ákvörðun ráðherra um að skipa nefnd um heildarendurskoðun laga um almannatryggingar hefur verið kynnt á fundi ríkisstjórnar. Verkefni nefndarinnar verður tvíþætt og felst annars vegar í innleiðingu starfsgetumats í stað örorkumats, hins vegar er nefndinni ætlað að fjalla um fjárhæðir lífeyrisgreiðslna til aldraðra og öryrkja og skila drögum að frumvarpi að nýjum lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga.