Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur gefið út skýrsluna „Mat ríkislögreglustjóra á hættu af hryðjuverkum og öðrum stórfelldum árásum".  Í skýrslunni er farið yfir helstu þætti í þróun hryðjuverka og ógnarmats í Evrópu, á hinum Norðurlöndunum og lagt mat á hryðjuverkaógn á Íslandi. Einnig eru gerðar tillögur til stjórnvalda á grundvelli matsins.

Helstu niðurstöður eru þessar:

  • Vesturlöndum stafar almenn og vaxandi ógn af starfsemi hryðjuverkasamtaka. Þegar þetta er ritað í febrúarmánuði 2015 á þessi lýsing einkum, en engan veginn einvörðungu, við samtökin Ríki íslams og Al-Kaída. Það er sameiginlegt mat öryggisstofnana á Vesturlöndum að fólk sem heldur í nafni þessara samtaka til að taka þátt í bardögum í Írak og Sýrlandi skapi ógn og mikil hætta sé á því að fólk þetta fremji ódæðisverk í er það snýr aftur til Evrópu.
  • Samdóma mat öryggisstofnana á Vesturlöndum er að raunveruleg hætta sé á að fólk sem heillast af málflutningi liðsmanna samtaka á borð við Ríki íslams, oftar en ekki um internetið, reynist reiðubúið að fremja ódæðisverk í nafni samtakanna þó svo viðkomandi hafi ekki tekið þátt í bardögum undir fána Ríkis íslams í Mið-Austurlöndum. Þetta mat hefur reynst rétt eins og atburðirnir í Frakklandi, Belgíu og Danmörku eru til vitnis um.
  • Með vísun til þess að fjöldi manna frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hefur haldið til Mið-Austurlanda í því skyni að berjast þar í nafni Ríkis íslams verður á engan veg útilokað að fólk búsett á Íslandi sé reiðubúið að gera hið sama.
  • Um þann möguleika að fólk hér á landi reynist tilbúið til að fremja hryðjuverk í nafni tiltekinna samtaka gildir hið sama; hann verður heldur ekki útilokaður.
  • Greiningardeild hefur upplýsingar um að vígamenn frá Norður-Ameríku hafi farið um Ísland á leið til eða frá þátttöku í bardögum í Mið-Austurlöndum í nafni Ríkis íslams. Þetta „gegnumstreymi“ þarf ekki að þýða aukna hættu á hryðjuverkum hér á landi en vissulega er sú hætta til staðar. „Gegnumstreymið“ varðar þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslendinga. Í því efni skal vísað til ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna Nr. 2178 frá 24. september 2014 þar sem ítrekaðar eru skuldbindingar aðildarríkja á sviði hryðjuverkavarna og þeim er gert að gera það sem í valdi þeirra stendur til að hindra ferðir erlendra hryðjuverkamanna um lögsögu þeirra.
  • Ástæða er til að ætla að slíkt „gegnumstreymi“ haldi áfram. Þar sem erlendar öryggisstofnanir gera almennt ráð fyrir því að hernaðaraðgerðir í Mið-Austurlöndum gegn samtökunum Ríki íslams með aðkomu vestrænna þjóða muni standa í langan tíma. Því telst viðvarandi hætta á að slíkt „gegnumstreymi“ hryðjuverkamanna fari fram um Ísland. Að mati greiningardeildar kallar þessi staðreynd ein og sér á aukinn viðbúnað á Íslandi hvað landamæraeftirlit og upplýsingaöflun um ferðir slíkra aðila varðar. Þá verður að hafa í huga að á Íslandi er að finna erlend skotmörk svo sem sendiráð.
  • Ríki íslams og árangursrík viðleitni samtakanna og annarra hryðjuverkahópa til að ná til fólks á Vesturlöndum hefur áhrif á þann veg á Íslandi að viðteknar sviðsmyndir hryðjuverkaógnar verða óstöðugar og geta breyst skyndilega. Óvissa fer vaxandi ekki síst vegna áhrifaþátta á borð við internet og samfélagsmiðla auk vaxandi ógnar í nágrannaríkjum og á meginlandi Evrópu. Því kann sú staða að skapast að nauðsynlegt verði að hækka vástig/viðbúnaðarstig lögreglu snögglega.
  • Lega Íslands skiptir ekki máli þegar kemur að áróðri á internetinu, þvert á móti getur almenn internetnotkun og tölvu- og snjalltækjaeign einmitt stuðlað að því að fleiri en ella komast í kynni við samtök á borð við Ríki íslams. Vísað er til þess sem áður sagði um mikilvægi internets og samskiptamiðla í starfsemi hryðjuverkasamtaka nútímans.
  • Lögregla á Íslandi býr yfir upplýsingum um einstaklinga sem telja verður hættulega samfélaginu þar sem viðkomandi búa yfir bæði löngun og getu til að fremja voðaverk.
  • Möguleikar til að sækja upplýsingar sem tengjast áformum um að fremja stórfellda árás fara sífellt vaxandi og á það m.a. við um undirbúning, vopn, sprengjugerð og ekki síst fordæmi. Þekkt er að menn „hermi eftir“ ódæðisverkum sem framin hafa verið. Ytri hvatar og áhrifaþættir valda vaxandi óvissu á þessu sviði öryggismála.
  • Í landinu eru til vopn, aðgengileg almenningi, sem nýta má til að framkvæma hryðjuverk og aðrar stórfelldar árásir. Slíkir atburðir geta verið handahófskenndir eða skipulagðir með skömmum fyrirvara.
  • Greiningardeild býr ekki yfir upplýsingum um að í undirbúningi sé hryðjuverk gegn Íslandi eða íslenskum hagsmunum. Hafa ber í huga að sökum takmarkaðra rannsóknarheimilda skortir upplýsingar til að leggja mat á mögulega ógn og telst það veikleiki. Þessi veikleiki veldur óvissu og gerir greiningar ónákvæmari en ella sem um leið felur í sér meiri áhættu fyrir samfélagið.

„Á grundvelli þess sem fram kemur í hættumatsskýrslu þessari, upplýsingum sem fyrir liggja og með þeim fyrirvörum sem greint hefur verið frá er niðurstaða greiningardeildar ríkislögreglustjóra sú að hættustig á Íslandi er metið í meðallagi," segir í lok skýrslunnar. „Almennt er talið að ekki sé hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum vegna ástandsins innanlands eða í heimsmálum."